Mynd
Mynd
Logo

Skinney-Þinganes var stofnað árið 1999 með samruna þriggja fyrirtækja, Borgeyjar hf., Skinneyjar hf. og Þinganess ehf. Borgey var elst þessara fyrirtækja, stofnað af Kaupfélagi Austur-Skaftfellinga ásamt hópi einstaklinga árið 1946, en Skinney og Þinganes voru fjölskyldufyrirtæki með um það bil 30 ára sögu að baki. Skinney var stofnuð árið 1968 en Þinganes fjórum árum síðar. Bæði fyrirtækin gerðu út vertíðarbáta og frá árinu 1987 rak Skinney einnig allumfangsmikla saltfiskverkun, humarfrystingu, síldarsöltun, síldar- og loðnufrystingu og niðurlagningu á síld.

Borgey gerði lengi vel út einn vertíðarbát en frá og með árinu 1975 voru þeir tveir, Hvanney SF 51 og Lyngey SF 61. Um miðjan níunda áratuginn var starfsemin aukin með kaupum á skuttogara, Þórhalli Daníelssyni SF 71. Síðar voru keyptir tveir vertíðarbátar til viðbótar og eftir sameiningu við útgerðarfélagið Samstöðu hf. árið 1992, undir nafni Borgeyjar, bættist annar skuttogari í flotann, Stokksnes SF 89. Sama ár tók Borgey yfir allan sjávarútvegsrekstur Kaupfélags Austur-Skaftfellinga og var þar með komið í hóp stærri sjávarútvegsfyrirtækja landsins. En róðurinn var þungur og í árslok 1992 var reksturinn kominn í þrot. Borgey varð að sjá á eftir báðum togurum sínum ásamt miklum bolfiskkvóta og að lokinni greiðslustöðvun, nauðasamningum og endurfjármögnun lagði fyrirtækið megináherslu á veiðar og vinnslu á síld og loðnu. Fyrst í stað virtist þetta ætla að skila góðum árangri en á árunum 1997 og 1998 fjaraði hratt undan rekstrinum og viðræður hófust um sameiningu við önnur sjávarútvegsfyrirtæki á Höfn eða aðkomu utanaðkomandi fyrirtækja. Í janúar 1999 samþykkti meiri hluti eigenda Borgeyjar tilboð Skinneyjar og Þinganess um kaup á rúmlega helmingi hlutafjárins og í kjölfarið voru fyrirtækin þrjú sameinuð.

Frá upphafi hefur Skinney-Þinganes lagt áherslu á að endurnýja skipaflota sinn og auka kvóta fyrirtækisins til að styrkja rekstrargrundvöll þess. Þetta hefur meðal annars verið gert með samvinnu við önnur sjávarútvegsfyrirtæki, kaupum á minni útgerðarfélögum og nýsmíði skipa. Jafnframt hafa verið gerðar margvíslegar úrbætur á búnaði fiskvinnslunnar. Árið 2002 keypti dótturfyrirtæki Skinneyjar-Þinganess, Skeggey ehf., fiskimjölsverksmiðjuna á Höfn en frá árinu 2007 hefur verksmiðjan verið í eigu Skinneyjar-Þinganess. Árið 2011 tók fyrirtækið yfir starfsemi netaverkstæðis Ísfells á Hornafirði. Að öllu samanlögðu telst Skinney-Þinganes vera um það bil tólfta stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins.
Logo