Á síðasta ári gerði Skinney-Þinganes og fyrirtækið Öryggisstjórnun ehf. samstarfssamning til þriggja ára um að koma á samræmdum og stafrænum áherslum í skipulagi og framkvæmd öryggismála í útgerðarstarfsemi fyrirtækisins.
„Þótt eftirtektarverður árangur hafi náðst í fækkun banaslysa til sjós á Íslandi þá er enn verk að vinna í öryggismálum sjómanna þar sem á annað hundrað sjómenn slasast ár hvert við störf sín. Reynsla mín, hafandi starfað við öryggismál sjómanna síðustu 14 ár, sýnir að ákveðið ósamræmi er í skipulagi og framkvæmd öryggismála sjómanna á milli útgerða og eins milli skipa innan sömu útgerða“, segir Gísli Níls Einarsson eigandi Öryggisstjórnunar ehf. „Á alþjóðavísu er oft talað um íslenskan sjávarútveg sem Kísildal (Silicon Valley) hvað varðar tækni og hugvit tengt veiðum, meðhöndlun fisks og vinnslu. Markmið vegferðar okkar er að gera öryggismál sjómanna hluta af þessum Kísildal“, bætir Gísli Níls við.
Öryggisvísitala sjómanna
Hluti af vegferðinni er að tekin eru viðtöl við alla skipstjórnendur og lykilstjórnendur um þeirra mat á stöðu öryggismála og hvar tækifærin liggja til að gera betur í öryggismálum um borð í skipunum. Sömuleiðis er búið að gera öryggiskönnun á meðal allra sjómanna hjá útgerðarinnar sem myndar ákveðna „öryggisvísitölu sjómanna“ út frá mismunandi þáttum, til að mynda skipulagi öryggismála, öryggisbúnaði, öryggisþjálfun, öryggisreglum, þátttöku sjómanna og stuðningi skipstjórnenda í öryggismálum um borð. Niðurstöðurnar leiða í ljós hvað eigi að leggja áherslu á í öryggisvegferð útgerðarinnar og hvernig sé best að nálgast hvert skip fyrir sig í öryggismálum sjómanna. Með öryggisvísitölu sjómanna eru líka komin ákveðin viðmið fyrir mælikvarða til að meta árangurinn í öryggisvegferðinni og jafnframt kominn samanburður fyrir útgerðir á því hvar þau standa í öryggismálum sjómanna. Öryggisvísitalan sýnir að það er munur á milli útgerða en í grunninn eru þær líka að glíma við sömu áskoranir í öryggismálum. Í dag hafa á fimmta hundrað sjómenn tekið þátt í könnuninni sem myndar öryggisvísitölu sjómanna.
Nútímavæðing öryggismála
Skinney-Þinganes og Öryggisstjórnun ehf, er líka í þróunarsamstarfi, ásamt nýsköpunarfyrirtækið Öldu Öryggi, um þróun á stafrænum lausnum í öryggismálum sjómanna sem verður ákveðið öryggisstjórnunarkerfi fyrir fiskiskip. Öryggisstjórnunarkerfið heitir Alda, sem er hugbúnaður og smáforrit (e. app) sem einfaldar allt utanumhald öryggismála á stafrænan máta og samræmir áherslur í öryggismálum um borð í öllum skipum. Öldu-forritið er til þess fallið að setja öryggismál á dagskrá á aðgengilegan og nútímalegan hátt um borð í skipunum ásamt því að virkja og færa öryggismálin nær sjómönnum. Fleiri útgerðir taka þátt í þróunarsamstarfinu og í sumar verða 30 fiskiskip hjá 8 útgerðum og á sjötta hundrað sjómenn þátttakendur í þróun á Öldunni.
„Það er mikil hugur í öllum útgerðunum sem eru þátttakendur í nýrri öryggisvegferð í öryggismálum sjómanna og þróuninni á Öldu-forritinu. Öryggisvegferðin hjá Skinney-Þinganesi hefur farið mjög vel af stað og var góð þátttaka hjá sjómönnum í öryggiskönnuninni um borð í skipunum. Ásamt því eru nú fimm skip, Þórir, Þinganes, Steinunn, Ásgrímur og Jóna Eðvalds þegar farin að nota Öldu-forritið. Sjómenn eru duglegir að taka þátt og benda á tækifæri til að efla öryggismálin enn frekar hjá útgerðinni. Það eru spennandi tímar framundan í öryggismálum sjómanna“, segir Gísli Níls að lokum.
Á dögunum fór Gísli Níls í heimsókn um borð í Steinunni SF-10 og tók þátt í björgunaræfingunni „Maður fyrir borð“ þar sem hann ásamt nokkrum huguðum áhafnarmeðlimum stukku í sjóinn og létu reyna á nýju Sjókalls- björgunarvestin.
Sjókall er heitið á litlu staðsetningartæki sem sett er í björgunarvesti og virkjast þegar sá sem er í björgunarvestinu fellur frá borði skips. Innan 20 sekúndna er neyðarkall sent í talstöð skipsins og í AIS-móttakara. Sjókall sendir einnig frá sér GPS staðsetningu. Sjókalls-björgunarvestin eru nú komin um borð í öll skip Skinneyjar-Þinganess hf.
Einar Haraldsson, skipstjóri um borð í Steinunni stökk einnig í sjóinn og var mjög ánægður með æfinguna þar sem áhafnarmeðlimir æfðu sig í að nota björgunarhring og skipskrana til að bjarga mönnum upp úr sjónum. Óhætt er að segja að mikil ánægja og stemming hafi verið á meðal áhafnarmeðlima sem tóku allir þátt í björgunaræfingunni, það sést vel á myndbandinu frá æfingunni.
Hér fyrir neðan má sjá myndband af æfingunni