Ný alsjálfvirk frystigeymsla rís á Höfn

Skinney-Þinganes hf. reisir nú nýja, alsjálfvirka frystigeymslu við frystihús sitt í Krossey í Hornafirði. Frystigeymslan er fyrsta sinnar tegundar á Íslandi og er bæði stálvirkið og sjálfvirki búnaðurinn frá þýska fyrirtækinu Westfalia.

Frystigeymslan er hönnuð þannig að engir lyftarar eru í húsinu og starfsfólk fer aðeins inn til viðhalds eða í neyðartilvikum. Brettin fara sjálfvirkt á færiböndum frá vinnslunni og koma út eftir pöntunum. Í miðju hússins starfa tveir kranar sem sjá um að sækja brettin.

„Undirbúningur hófst fyrir þremur árum en framkvæmdir fóru á fullt í byrjun árs 2024. Verkefnið er tæknilega flókið þar sem ekki er byggt hús og svo rekkakerfi inn í það – heldur er rekkakerfið sjálft burðavirki hússins. Eftir okkar bestu vitund er þetta í fyrsta sinn sem þessi aðferð er notuð á Íslandi,“ segir Bjarni Ólafur Stefánsson, framkvæmdastjóri uppsjávarsviðs.

Í frystihúsi fyrirtækisins við Krossey er bæði unnin uppsjávarafurð og bolfiskur. Nýja geymslan er þó fyrst og fremst hugsuð fyrir uppsjávarafurðir sem eru unnar á vertíðum en seldar allt árið. Með geymslunni bætast við um 8.000 brettastæði, sem mun gjörbylta aðstöðu og auka sveigjanleika í afhendingu.

Að verkefninu koma fjölmargir innlendir og erlendir verktakar og sérfræðingar. Frystikerfið kemur frá Kælismiðjunni Frost, Stálgrindarhús ehf. sér um grunn og klæðningu hússins og Efla verkfræðistofa og ASK arkitektar annast hönnun.

„Stefnt er að opnun geymslunnar á loðnuvertíð sem hefst í febrúar 2026. Til þess að það gangi upp þarf kæling hússins að hefjast á réttum tíma – það tekur um 21 dag að ná réttu hitastigi þar sem ekki má lækka hitann um meira en 1,5 gráðu á sólarhring,“ bætir Bjarni Ólafur við.

DEILA FRÉTT

Krossey, 780 Hornafjörður

+354 470 8100

Form - Ísl

Skinney-Þinganes tekur á móti rafrænum reikningum í gegnum skeytamiðlun Inexchange eða á netfangið [email protected]