Ísfélag hf. og Skinney-Þinganes hf. hafa gengið frá samkomulagi um kaup nýs sameiginlegs félags á uppsjávarskipinu Jónu Eðvalds SF-200. Kaupandi skipsins er Horney ehf., félag sem var stofnað í lok síðasta árs og er í sameign Skinneyjar-Þinganess og Ísfélags, þar sem hvort félag á helmingshlut. Skipið hefur nú hlotið nafnið Júpíter VE-161 og verður gert út til skiptis af eigendum þess eftir þörfum hverju sinni.
Skipið er selt án aflaheimilda og án veiðarfæra, þar sem aflahlutdeildir hafa verið fluttar yfir á önnur skip í eigu Skinneyjar-Þinganess hf.
Jóna Eðvalds SF-200 var smíðuð árið 1975 hjá Flekkefjord skipasmíðastöðinni í Noregi og hefur áður borið nöfnin Birkeland, Björg Jónsdóttir og Krossey. Skipið fór í miklar endurbætur í Póllandi árið 2004, þar sem meðal annars var sett ný aðalvél og brú á skipið. Árið 2008 var frystilestum þess breytt og RSW kælikerfi sett í lestar skipsins. Árið 2014 voru allir tankar teknir í gegn og þeir sandblásnir og málaðar og allar vistaverur í skipinu endurnýjaðar. Jóna Eðvalds hefur verið nýtt til veiða á síld, loðnu og makríl.
Skipinu var lagt síðastliðið haust og áhöfn þess færð yfir á uppsjávarskip Skinneyjar-Þinganess, Ásgrím Halldórsson SF-250. Nýr Ásgrímur Halldórsson er í smíðum hjá Karstensen skipasmíðastöðinni í Póllandi. Gert er ráð fyrir að skipið fari frá Póllandi til starfsstöðvar skipasmíðastöðvarinnar í Danmörku í maí næstkomandi og verði afhent Skinney-Þinganesi í nóvember.
Mynd með fréttinni var tekin af Sverri Aðalsteinssyni.